Færsluflokkur: Lífstíll

Þreyta

09b-tired-t11692.jpgÍ byrjun júní sá ég fram á að geta montað mig af því að hafa unnið 120% vinnu, borðað hollt, stundað líkamsrækt og haldið flottu heimili  ásamt því að vera í tveimur fögum í sumarskóla.

 Ég át hollt fyrstu vikuna, tók nokkra sumarfrísdaga í vinnunni, það kviknaði óæskilegt líf á heimilinu en ég mætti í ræktina. 

Ég er enn ekki búin að koma mér út úr óhollustu, það tekur á. Það eina sem mig langar að borða er weetos, brauð með súkkulaðismjöri, snakk og nammi. 

Það versta við þetta er er að ég er þreytt og löt. Ég er þreytt þegar ég kem heim úr vinnu og mig langar bara að leggja mig. Um helgar vil ég bara vera heima að horfa á despó. 

Þegar ég borða hollan mat Þá kveður þreytan og nennirinn fer í gang. Það er spurning um að festa skóinn í boruna og hætta þessu væli. 

Bíta á jaxlinn, jebb jebb ég held ég geti það. 

Bæjæbæbæbæbæ


Hamborgari án brauðs

make-a-perfect-hamburgers600x600.jpgHamborgari án brauðs er merkilega góður, jafnvel betri en borgari með brauði. Ég hendi hér inn uppskrift af með þeim bestu borgurum sem ég hef smakkað. 

Steiktur borgari með osti

Tómatsalsa:
2 tómatar
biti af agúrku
hvítlauksrif
skalotlaukur
sítrónusafi

Allt smátt skorið og blandað saman, smá sítrónusafi kreistur yfir

Sinnepssósa:
2 msk grísk jógúrt
1 tsk gróft sinnep (ég nota frá himneskri hollustu)
2 tsk hlynsíróp
mjólk til að þynna

Þessu er öllu hrært saman

Sætar kartöflur skornar í mjög þunnar sneiðar og steiktar á pönnu (ég eiginlega djúpsteikti þær), bara ekki brenna þær eins og ég gerði. Þægilegast held ég að taka nokkrar kartöflur í einu og steikja. 

Svo er bara að skella sósu á borgarann og tómatsalsa og sætum til hliðar. 

Bæjæbæbæbæbæ

 


Hinn mikli morgundagur II

1048652-royalty-free-rf-clip-art-illustration-of-a-cartoon-black-and-white-outline-design-of-a-man-striding-into-to.jpgAf 12 miðum eru 7 búnir, það strandar allt á að fara í gegnum emailin.

Þá er stóra spurningin, þarf ég að vera á öllum þessum póstlistum? Á ég eftir að ná að lesa þetta? Á ég eftir að nýta mér þetta?

Matarblogg sem dæmi, ég safna uppskriftum sem ég nota aldrei. Þá er málið annaðhvort að nýta þetta eða hætta að safna. Ég á nokkuð mörg gömul gestgjafablöð sem geyma tonn af girmilegum uppskriftum sem ég tel mér alltaf trú um að einn daginn muni ég nota. Síðan eru liðin nokkuð mörg ár. 

Dralshreinsun snýst einmitt um þetta - halda og nota eða henda/gefa. 

Af hverju er svona erfitt að losa sig við drasl? Dóttir mín heldur fast í matardiska af því að henni finnst þeir flottari en þeir sem hentar betur að nota. Hví? 

Geymslan er eftir: gömul boxdýna, trilljón gamlir bangsar, slatti af snúrum, gamlar myndir sem munu ekki fara aftur upp á vegg, enn meira af snúrum - þetta eru gull sem aðrir verða að fá að njóta. 

Ég er einnig búinn að vera í draslhreinsun í fæðunni, þ.e.a.s. ég er búin að vera að hreinsa drasl upp í mig. Afleiðingin er sú að ég ligg fyrir á kvöldin af kvölum. Nú er bara að koma sér aftur á beinu brautina, 2ja daga verkjakast dugir vonandi til. 

Bæjæbæbæbæbæ


Hin mikli morgundagur

list.jpg

Morgundagurinn er dagurinn sem allt á að gerast. Eða jafnvel mánudagur í næstu viku (sagt á mánudegi), eða fyrsti næsta mánaðar - eða áramót.

Smáverkefni hlaðast upp af því að ég ætla að gera þau á morgun. Ég safna linkum af vefsíðum af því að ég ætla að skoða þá morgun, ég safna bókum og ætla að skoða þær á morgun, ég drasla til í skápum af því að ég ætla að laga til á morgun, ég hendi dót í geymslu og ætla að taka þar til á morgun og svo framvegis. 

Ég keypti mér fyrir nokkrum árum bók sem nefnist "Á morgun segir sá lati" eftir Ritu Emmet. Ég las bókina á einum degi, henti upp lista af verkefnum og kláraði megnið af þeim. Nokkrum árum seinna las ég bókin aftur og sá að ég hafði lagast heil ósköp, ég var ekki sami trassinn en trassi samt. 

Nú er ég að lesa aðra bók eftir hana, "burt með draslið". Nú er ég í logandi stuði að fara að taka til heima hjá mér og losa mig við (ó)þarfa drasl (dót). 

Verkefnalistar eru leiðinlegir, þú horfir eftir listanum og sérð allt sem þú átt eftir. Þess vegna bregð ég á það ráð þegar ég á mikið af ókláruðum verkefnum að skrifa á litla miða, brjóta þá saman og draga. 

Ég dreg einn miða, klára það verkefni og er svo spennt að sjá hvað kemur næst upp úr hattinum.

Bæjæbæbæbæbæ


Aftur á beinu brautina

germs.jpgEða eins beina og hún getur orðið. Ég gat það ekki fyrr en í dag af því að mamma var að baka kleinur. Ég get ekki sagt nei við mömmu!

Ef við ýmindum okkur að meltingarfærin séu uppfull af óværu og að það sé helsta orsök allra minna vandræða þá er ég næsta viss að þær líti út eins og á myndinni eftir allt gotteríið.

Meltingarsérfræðingur vildi meina að ég þjáðist af iðraólgu en næringarráðgjafi sagði að það væri bara greining sem læknar klíndu á þegar þeir vissu ekki hvað væri að og þeir hefðu ekki tíma til að gramsa eftir orsök. 

Heilsugúrúar vilja meina að þetta sé allt skemmdir á meltingarvegi og ofvöxtur baktería sem spúa eitri út í líkamann sem valdi þessum einkennum í taugakerfinu. 

Ég spyr; ef ég fer ekki nákvæmlega eftir X matarræði, mun ég þá ekki lagast? Ég hef t.d. ekki kost á lífrænt ræktuðum matvælum, reglulegum ferðum í heilsuhúsið eða dýrum þeytingum. 

Ég tók út sætar kartöflur vegna þess að í annarri hvorri leiðandi skruddunni var mælt með að þær yrðu teknar út. Ég ákvað samt nú að henda þeim inn aftur eingöngu vegna þess að þær eru assgoti góðar.

En ef svo er að hin eina rétta leið að skjótum árangri (þ.e.a.s. á 6 mánuðum) sé að fylgja formföstu matarræði X þá hugsa ég að mig langi frekar að skjóta á ár. 

Mig langar að svindla og borða kolvetni af og til, vonandi eftir eitt ár verð ég hætt að drulla. 

Bæjæbæbæbæbæ

 


Fullkomið egg

eier-03.jpgSoðin eggjarauða veldur því að kokið á mér umhverfist og gerir heiðarlega tilraun til að komast út með það miklum látum að maginn ætlar með. 

Að því sögðu er skiljanlegt að ég hafi ekki lagt í að slafra hráa eggjarauðu, enda ólystug með öllu.

Í bókinni "melt og geð" er talað um að egg séu góður og hollur matur og að líkaminn melti betur hráa eggjarauðu, en ekki eggjahvítu (ég nennti ekki að leita að rannsókn sem styður það). 

Af því að ég er svo hlýðin og góð kerling þá ákvað ég að láta af aumingjaskapnum, linsjóða egg og éta blessaða eggjarauðuna og það hráa. Ég var að sjálfsögðu tilbúin með eldhúspappír til að þerra tárin sem brytust fram meðan ég væri að venjast að eta eggjarauðu. 

Engin voru tárin samt og ég náði að halda kokinu nokkuð stöðugu fyrst um sinn. 

Þau undur og stórmerki gerðust svo að ég hóf að elska linsoðnu eggin mín og ég stend mig að því að hoppa og klappa af spenningi meðan ég bíð eftir að eggin soðni. 

Upp frá því hóf ég að finna út hvernig ég gæti soðið hið fullkomna linsoðna egg. Egg þar sem rauðan er alveg hrá en hvítan alveg soðin.

Næringarfræðikennarinn minn sagði eitt sinn að til að fá prótein til að hlaupa þá ætti að setja mat í heitt vatn, t.d. fisk og kartöflur, þá héldust næringarefnin betur inni. 

Hví ekki að gera þetta við eggið? Hleypa suðu upp á vatni, skella eggjum út í og leyfa þeim að sjóða í *5:45 mínútur - afraksturinn? Hið fullkomna egg. 

Bæjæbæbæbæbæ 

*Breytt, var 5 mín


Vegurinn

transfagarasan_twisty_road.jpg

Leiðin markmiði er ekki bein, það þarf að ganga veg fullan af hindrunum. Ef maður hugsar með sér "hér er markmið, ég geng beint að því" er næsta víst að maður detti ofan í holuna á veginum og sitji þar bara. Leiðin að markmiði er líkari þessum vegi hérna - og gengið er upp í móti ekki niður á við. 

Að því sögðu, ég fékk mér samloku í grilli og muffins. Og smá nammi. Eitt af uppáhaldsnamminu mínu er bounty, í vinnuni í gær var nammidós sem búið var að klára allt úr - nema eitt lítið bounty sem beið eftir mér á borðinu. 

Ég trúi ekki á guð en ég þorði ekki öðru en að hlýða og borða þetta blessaða nammi. 

Afleiðingarnar að sjálfsögðu hafa verið kláði, slímhúðarþurrkur og vond kúkafýla. Kúka- og prumpufýla á almennt ekki að vera svo vond, það merkir oft að það sé eitthvað ekki í lagi. 

En þá er næsta skref bara að ég snýti mér og sný mér aftur að markmiði mínu, gera eins vel og ég get vitandi það að ég á eftir að hvíla mig á leiðinni upp. 

Ég var að hugsa um fyrst að ég er byrjuð að svindla hvort ég ætti ekki að fá mér eitt pipp? Pipp er svo gott. 

Bæjæbæbæbæbæ


Cheetah

cheetah.jpgEf það væri svo gott að ég væri núna sterk og spræk sem blettatígur þá væri það afar ljúft.

En nei, ég er bara uppfull af nachos, ostasósu, snickers, hálfum lítra af rauðum kristal, hrökkbrauði með hnetusmjöri og sultu (x3), þurrkaðri aprikósu, nokkuð mörgum þurrkuðum bláberjum, tveimur brasilíuhnetum, nokkrum möndlum og linsoðnu eggi - ásamt slatta af kláða - og mig langar í eitthvað meira að maula. 

Mig langar eiginlega mest í hafragraut með bláberjum og rjóma. 

Eða annað egg. 

Ég er svo sem ekkert ægilega súr yfir þessu blessaða svindli, ég fer bara ekkert aftur í bíó næsta hálfa árið eða svo.

Bæjæbæbæbæbæ


Paelo

snickers1.jpgEr það málið, paelo? Bara kjét, grænt, hnetur, möndlur og dass af ávöxtum. Engann sykur, nema kannski hunang, enga sterkju (baunir og kartöflur (líka sætar)), engar mjólkurafurðir og hvorki mjöl né grjón.

Ég hef að vísu séð nokkrar útfærslur - sumir hafa smjör inni, aðrir sætar kartöflur og enn aðrir mikið af ávöxtum.

 Væri þetta ekki sneddí ef maður mætti borða hafragaut alla daga og snickers einu sinni í viku? Mig langar í snicers!

Bæjæbæbæbæbæ


Kálvefja með mangósósu

vecab1712_3.jpgÍ mango chutney er 46% sykur. Er matur almennt virkilega svo vondur að það þurfi að byggja hann á sykri? Í alvöru, hvað er að?

Ég bjó til mitt eigið mangó chutney og það var frekar spes að finna ýmis brögð, það var ekki bara sætt bragð eins og venja er orðið af matnum okkar. 

Ég var með 2 lúkur af frosnu mangói sem ég leyfði að þiðna aðeins. Þessu henti ég í matvinnsluvél ásamt tveim hvítlauksrifjum, hálf chillialdini og u.þ.b. matskeið af hlynsýrópi. Síðan hrærði ég við þetta tveim góðum matskeiðum af grískrí jógúrt og úr varð fínasta sósa. 

Ég var með savoy kál, sem er frekar spes í svona vefju. Ég fann ekkert gott salat annað en jöklasalat og mig langaði ekki í jöklasalat. Ég þarf að leita betur að góðu salati til að nota í svona. 

Tómatar, agúrka og paprika vel skorið var hent ofan í ásamt steiktum kjúklingabringubitum.

Hrísgrjónin gleymdust, þau verða með næst.

Bæjæbæbæbæbæ 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband