Nýtt líf?

Fyrir ári síðan eða svo, var ég valhoppandi sæl og ánægð með lífið. Ég var í fínu formi með það markmið að æfa fyrir þrekmótaröðina og í það minnsta að klára keppni. Ég fór að fá illt magann ansi oft, sleppti annari keppni ársins en var einbeitt að æfa fyrir þá þriðju í ágúst.

 Ég og dollan urðum ansi góðar vinkonur. Ég sver og segi það satt, rassinn á mér tók á sig mynd klósetts, ég sat þar svo oft. Ég ætla bara að árétta það að ég lýg aldrei!

 Jæja, sumarið leið þannig að ég æfði og skeit til skiptis. Keppninni náði ég að ljúka með nokkurri sæmd en við tók versandi andleg og líkamleg heilsa. Ég vissi vel að fæða var að hrjá mig, en ekki hvaða. 

Ekki var það mjólk eða glútein, ekki var það frúktósi eða súkrósi. Hvað var það þá af þessum um og yfir 200 fæðutegunda sem ég neyti að jafnaði?

Ég var í lok árs orðin mjög veik. Fyrir utan það að kenna til í meltingarvegi þá komst ég varla fram úr rúmi því ég var búin að bæta á mig andlega nokkuð mikilli þyngd.  Ég var ekki lengur glöð og ánægð með lífið, lífið var ömurlegt og í stað þess að brosa var ég að vökva koddann. Þær fæðutegundir sem voru að gera mig svona mikið veika voru bygg og kalk og magnesíumblanda. Einnig Þoli ég illa hrátt grænmeti eitt og sér, en ég hef ekki verið mikið veik síðan ég tók hið fyrrnefnda út. 

Meltingarvegurinn er líklegast frekar laskaður eftir allt þetta havarí, ég er allaveganna með magasár og magabólgur og gvöð má vita hvernig restin lítur út. Það ætla ég að laga. Samkvæmt hugmyndum heilsugúrua þarf líkaminn á hreinsun að halda og er að öllum líkindum uppfullur af óværu, allskonar meinvirkum örverum og sveppum (þar með hinn frægi candida). Það eru skiptar skoðanir á hvað má borða og hvað ekki og hef ég því inni það sem mér líst á. 

En allur unnin matur er út, sykur er úúúti (allt nema hunang og hlynsýróp), allar mjölafurðir nema rúgur, hafrar og maísmjöl, hvít grjón, allar mjólkurvörur nema nýmjólk, rjómi, íslenskt smjör og hrein jógúrt, sumir ostar, kartöflur, sætar kartöflur, flestar bauinir og annað. 

Einu bætiefnin sem ég tek inn er Heiður, frá jurtaapótekinu, msk af lýsi og 2 msk af hörfræolíu. Seinna ætla ég að taka inn mjólkurþistil, en hann á að vera góður í að hreinsa lifur. Einnig ætla ég að taka inn glútamín en það er gott fyrir laskaðan meltingarveg. Annars læt ég duga að borða góðan mat. 

Fyrst um sinn er svengdin frekar mikil þar sem magann vantar allt þetta brauð til að fylla á tankinn. Einnig er sykurþörfin svolítið erfið, sérstaklega í dag þar sem ég var orðin afar svöng þegar ég kom heim. Það eiginlega má ekki gerast því þá er erfiðast að halda sig á beinu brautinni, mig langaði bara í seríós með AB mjólk! Gargasta barasta. 

En ég fékk mér fiskisúpu sem var hrikalega góð (2 skálar), nokkur þurrkuð bláber (þau eru mjög sæt og mjög góð þegar sykurþörfin sækir á), eina brasilíuhnetu og nokkuð margar hrökkbrauðsneiðar með ljúfling og sykurlausri sultu. Já og heitt kakó - nýmjólk, 2 tsk lífrænt kakó og sletta af hlynsýrópi. Þá varð ég södd og sæl. 

Dagur eitt var í gær, var með drullu í dag og er uppþanin eins og vindbelgur núna. En afturför er hluti af framför, ef ég verð enn með ósýnilegt barn í maganum eftir mánuð þarf að endurskoða listann. 

Ætli þetta sé upphafið að nýju líf?

Bæjæbæbæbæbæ!

 

 

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband