Mér til mikillar ánægju var ég búin að finna gómsæta uppskrift af leyfilegum eftirrétt, RAW vegan köku. Þetta lítur mjög vel út allt saman og girnilegt að sjá. Ég lagði reyndar hnetur, möndlur og döðlur í bleyti yfir nótt og ég notaði valhnetur. Annars fór ég að mestu eftir uppskrift.
Matvinnsluvélin sem ég á er algjört drals. Hún rétt svo nartar í matinn og hendir honum svo upp að vegg rétt svo bituðum vel gróft. Það slapp með botninn en með kremið var annað mál. Ákvað ég því að skella kreminu í blandarann og bæta rjóma við. Blandarinn réði ekkert svo vel við þetta, enda ekkert gæðamerki. Í einni hrærunni gleymdi ég að setja tappann á lokið, það tók mig smá stund að fatta af hverju lófinn á mér varð öll útí mauki þar sem ég notaði hann sem tappa.
Kremið hafðist að mestu, smá avocado bitar hér og þar hljóta að sleppa. Kremið fór ekki allt alveg ofan á kökuna, slatti slettist á hendina á mér, veggina og borðið. Það er nefnilega þannig oft á tíðum að þegar ég stíg inn í eldhús þá fer heilinn á mér í "failure mode". Stundum, ekki oft, en stundum heppnast eldamenska glimrandi vel. Bakstur - í kannski 1% tilvika. Jú þetta er ætt en, já bara en. Ég vona að ég sé góð í rúminu því annars er von á að ég verði piparjúnka það sem eftir er.
Kakan er aðeins verri en sæmileg á bragðið, ég get étið þetta með herkjum.
Eldhúsið núna er eins og tveir fimm ára krakkar hafi ákveðið að elda matinn í óþökk mömmu, ég var elda. En maturinn bragðaðist ægilega vel, og leit vel út líka.
Hamborgari (án brauðs en með osti) með tómatsalsa og fersku salati. Hamborgarinn var aðeins of kryddaður, en salsað bjargaði þessu. Tómatsalsað átti að vera tómatsósa samkvæmt uppskrift en hey - tómatur túmatur.
Ég læt fylgja með uppskrift af salsanu
2 tómatar, tekið innan úr þeim
1 hvítlaksrif
1/2 laukur (var frekar mikið samt)
salt
svartur pipar
1/2 chillialdin
basilíka
1 msk olía
1 msk rifinn sítrónubörkur
Ég setti þetta allt saman í lélegu matvinnsuvélina mína, þetta kom ágætlega út þaðan (nema ég saxaði hvítlauk og chilli). Annars er hægt að beita hnífnum listilega vel á þetta allt saman.
Bæjæbæbæbæbæ
Lífstíll | 7.4.2012 | 21:25 (breytt kl. 21:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á mínu heimili er skyndibiti einu sinni í mánuði, svona allajafna. Pulsa til eða frá telst ekki með og ekki hollari útgáfur. Afkvæmið kom með þá hugmynd í gær að það yrði pizza í matinn, ég var búin að ákveða það að sjálfsögðu að hún fengi skyndibitann en ég bara blómkál og salatblöð.
Ég er ágæt í rökræðum og náði að sannfæra sjálfa mig með ágætis rökum að ég gæti alveg fengið mér smá pizzu, það er jú alveg lágmark hálft ár þangað til ég fæ að bragða á þeirri dýrð aftur.
Þessi litla pizza sem ég ætlaði að bragða á varð í lok kvölds að einni miðlungs Dominos, rúmlega hálf pizza í kvöldmat og restin fyrir svefn. En mikið assgoti var þetta gott. EN nú þýðir ekkert að hrasa aftur, það er ekkert annað í boði en blómkálspizza!
Um kvöldið var ég með liðverki, feita putta og í mikilli sykurþörf. Ég fékk mér nokkur þurrkuð bláber, þurrkuð trönuber og eina fíkju. Hvort þetta séu sérstök einkenni af pizzuáti kemur í ljós með tímanum, en neikvæðar hugsanir tengi ég við neyslu á óhollu fæði. Ég hef tekið eftir því að þegar ég gúffa í mig allskonar drasli þá líður mér illa andlega, hugsanir mínar verða neikvæðar, ég verð afar reið við allt og alla og vökva jafnvel koddann í brjálæðinu. En hvort það lagist kemur í ljós með tímanum bara.
Þurrkuðu trönu- og bláberin sá ég um daginn að eru með sykri. Ég ætla þrátt fyrir það að halda mig við þau þar sem þau eru góð í sykurstjórnun, þ.e. mig langar ekki í nammi eða óhollan mat eftir neyslu þeirra. Kjúklingabringur ætla ég einni að hafa á borðum þrátt fyrir að það sé sykur í þeim. Það er mjög erfitt að taka hann 100% út. Hafið þið lesið innihaldslýsingar á frosnum kjúklingabringum? Júrósjopper bringurnar eru 80% kjöt en íslensku bringurnar 90% kjöt. Ég get lítið annað sagt en WTF!?
Hefurðu einhverntímann spáð virkilega í innihaldslýsingar á matnum sem þú ert að kaupa? Það er annaðhvort sykur eða sykurstaðgengill í bóðurpartinum af tilbúnum mat. Jafnvel í hollustuhillunum, þar er agave sýrópi eða hrásykri troðið í matinn. Það er hvergi óhullt fyrir sykurinnrásinni, þetta er okkar Mars attacs.
Hollustugúrúrar bölva einnig hveiti en troða spelti í allt, en spelt er bara ein tegund af hveiti. Má vera að sumum líði betur af að borða spelt (spelt fer illa í mig), en mér finnst undarlegt að bölva einni tegund en mæra aðra og selja hana svo dýrum dómum. Næringarlega er lítill munur, hveiti er kalk- og trefjaríkara en spelt járn- og fituríkara sem dæmi. Þá er ég að tala um heilhveiti og heilspelt.
Í kvöld ætla ég að bita kjúklingabringu og steikja hana á wok ásamt grænmeti og rauðum hrísgrjónum. Þetta verður kryddað með karrý, tamari sósu og sweet chillisósu sem ég ætla að klára, ég tími ekki að henda mat. Ég þarf að gera tilraunir í eldhúsinu og malla mína eigin sætu cillisósu.
Bæjæbæbæbæbæ
Lífstíll | 6.4.2012 | 14:44 (breytt kl. 14:53) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mér telst að það sé dagur fjögur í dag. Það gekk allt ægilega vel í gær, ég varð alveg hroðalega svöng um kvöldmatarleytið og ákvað að henda saman í eina góða ommilettu í stað þess að falla í freistni. Ég hrærði saman þrem eggjum, stráði yfir nokkrum þurrkuðum chilliflögum, raspaði hvítluksrif yfir, saxaði púrrulauk og skellti honum ofan í ásamt tveim lúkum af spínati. Þetta steikti ég síðan og úr varð þessi ægilega girnilega kaka.
Hún bragðaðist ógeðslega, það var blautt, svampkennt brunabragð af henni *hrollur*. Í stað þess að fara að grenja og hlaupa út og kaupa mér hamborgara át ég hrökkbrauð með hnetusmjöri og epli (það er hrikalega gott). Ég hallast að því samt að ég þoli ekki hneturnar, ég þarf að taka prufu á það. Þá þarf ég að kaupa rakadræga vasaklúta því ef svo er þá mun ég úthella tárum.
Í gærkvöldi ákvað ég að svindla pínupons, ég fékk mér ís úr vél í box (án alls). Rjómaísinn er heldur betri því í jurtaís er töluvert meiri sykur, plús að þú færð A og D vítamín úr rjómanum, en E vítamín úr jurtaís.
Stuttu seinna iðaði ég eins og ormur í sófanum af pirring í líkamanum, þá sérstaklega fótunum. Ég barði skönkunum aðeins í sófann, svona ef ske kynni að ég næði að lemja vit í líkamann. Það hafðist stuttu seinna því pirringurinn leið hjá.
Ég hef minna orðið vör við fótapirring eftir að ég fór að hallast að hollari mat. Hér áður var ég liggjandi í rúminu í æðistkasti, berjandi fótleggjum, handleggjum og jafnvel höfði í rúmið eins og krakki í æðiskasti því hann mátti ekki fá ís. Gott að vera að mestu laus við þennan fjanda.
Mér líður í dag eins og ég sé með feita putta og andlitið á mér stækkaði um tvö númer eða svo. Ætli það hafi verið ísinn? Hvernig verð ég þá eftir páskaeggja átið, ef svo er raunin!? Já, ég ætla að fá mér eitt páskaegg - Nóakropp egg meira að segja, ég fer varla til helvítis af smá súkkulaði.
Eða það vona ég.
Bæjæbæbæbæbæ
Lífstíll | 5.4.2012 | 12:59 (breytt kl. 13:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir ári síðan eða svo, var ég valhoppandi sæl og ánægð með lífið. Ég var í fínu formi með það markmið að æfa fyrir þrekmótaröðina og í það minnsta að klára keppni. Ég fór að fá illt magann ansi oft, sleppti annari keppni ársins en var einbeitt að æfa fyrir þá þriðju í ágúst.
Ég og dollan urðum ansi góðar vinkonur. Ég sver og segi það satt, rassinn á mér tók á sig mynd klósetts, ég sat þar svo oft. Ég ætla bara að árétta það að ég lýg aldrei!
Jæja, sumarið leið þannig að ég æfði og skeit til skiptis. Keppninni náði ég að ljúka með nokkurri sæmd en við tók versandi andleg og líkamleg heilsa. Ég vissi vel að fæða var að hrjá mig, en ekki hvaða.
Ekki var það mjólk eða glútein, ekki var það frúktósi eða súkrósi. Hvað var það þá af þessum um og yfir 200 fæðutegunda sem ég neyti að jafnaði?
Ég var í lok árs orðin mjög veik. Fyrir utan það að kenna til í meltingarvegi þá komst ég varla fram úr rúmi því ég var búin að bæta á mig andlega nokkuð mikilli þyngd. Ég var ekki lengur glöð og ánægð með lífið, lífið var ömurlegt og í stað þess að brosa var ég að vökva koddann. Þær fæðutegundir sem voru að gera mig svona mikið veika voru bygg og kalk og magnesíumblanda. Einnig Þoli ég illa hrátt grænmeti eitt og sér, en ég hef ekki verið mikið veik síðan ég tók hið fyrrnefnda út.
Meltingarvegurinn er líklegast frekar laskaður eftir allt þetta havarí, ég er allaveganna með magasár og magabólgur og gvöð má vita hvernig restin lítur út. Það ætla ég að laga. Samkvæmt hugmyndum heilsugúrua þarf líkaminn á hreinsun að halda og er að öllum líkindum uppfullur af óværu, allskonar meinvirkum örverum og sveppum (þar með hinn frægi candida). Það eru skiptar skoðanir á hvað má borða og hvað ekki og hef ég því inni það sem mér líst á.
En allur unnin matur er út, sykur er úúúti (allt nema hunang og hlynsýróp), allar mjölafurðir nema rúgur, hafrar og maísmjöl, hvít grjón, allar mjólkurvörur nema nýmjólk, rjómi, íslenskt smjör og hrein jógúrt, sumir ostar, kartöflur, sætar kartöflur, flestar bauinir og annað.
Einu bætiefnin sem ég tek inn er Heiður, frá jurtaapótekinu, msk af lýsi og 2 msk af hörfræolíu. Seinna ætla ég að taka inn mjólkurþistil, en hann á að vera góður í að hreinsa lifur. Einnig ætla ég að taka inn glútamín en það er gott fyrir laskaðan meltingarveg. Annars læt ég duga að borða góðan mat.
Fyrst um sinn er svengdin frekar mikil þar sem magann vantar allt þetta brauð til að fylla á tankinn. Einnig er sykurþörfin svolítið erfið, sérstaklega í dag þar sem ég var orðin afar svöng þegar ég kom heim. Það eiginlega má ekki gerast því þá er erfiðast að halda sig á beinu brautinni, mig langaði bara í seríós með AB mjólk! Gargasta barasta.
En ég fékk mér fiskisúpu sem var hrikalega góð (2 skálar), nokkur þurrkuð bláber (þau eru mjög sæt og mjög góð þegar sykurþörfin sækir á), eina brasilíuhnetu og nokkuð margar hrökkbrauðsneiðar með ljúfling og sykurlausri sultu. Já og heitt kakó - nýmjólk, 2 tsk lífrænt kakó og sletta af hlynsýrópi. Þá varð ég södd og sæl.
Dagur eitt var í gær, var með drullu í dag og er uppþanin eins og vindbelgur núna. En afturför er hluti af framför, ef ég verð enn með ósýnilegt barn í maganum eftir mánuð þarf að endurskoða listann.
Ætli þetta sé upphafið að nýju líf?
Bæjæbæbæbæbæ!
Lífstíll | 3.4.2012 | 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar