Ég heyri konur tala mikið um ógeðslegu lærin sín, þetta slitna ljóta drasl með krumpaða appelsínuhúð. Einni varð meira að segja á orði að hún hefði ekki líkamann í að fara í bikini. Ef konum almennt finnst slitnu appelsínulærin SÍN ógeðsleg þá hljóta mín slitnu appelsínulæri líka að vera ógeðsleg. En ég flagga þeim bara, svona er ég illa innrætt.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 23.6.2013 | 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég var í gær að játa fyrir sjálfri mér að ég þjáist af fyrirtíðaspennu. Mér hefur aldrei dottið í hug að nefna þetta því nafni því í huga mér voru bara viðkvæmar konur sem þjást af þessu. En ég játa, ég er ein af þeim.
Ég hef alla tíð bara verið nokkuð glaðlynd, það tók mig því nokkuð marga mánuði að átta mig á því að Ms. Hyde væri reglulegur gestur á föstum tíma.
Reyndar þegar ég fékk einkenni hormónóreglu fyrir nokkrum árum þá þurfti mömmu til að segja mér tengslin, því ég er bara skussi og tengi ekki svona lagað.
Að öllu jöfnu er ég bara trallandi og syngjandi sæl. Ég dansa við eldamennskuna, syng í sturtunni, tala hátt og mikið, hlæ eins og ég fái forstjórnalaun fyrir, á þó daga þar sem ég er ekki trallandi en samt nokkuð sátt, stundum döpur, stundum smá reið.
En svo einn daginn af einhverri góðri ástæðu fer ég að grenja. Og ég grenja allan daginn, þann næsta og jafnvel þar næsta. Ég er einnig að kafna úr reiði. Þungur þrýstingur býr um sig í brjóstholinu og leitar leiða til að sprengja sig út. Mig langar að brjóta og bramla allt helvítis draslið og allt Þetta fólk sem er að gera mér lífið leitt má hoppa upp í fokkings rassgatið á sér. Vinkona mín gerir eitthvað af hugsunarleysi, ætla aldrei aftur að tala við hana. ALDREI! Unglingurinn kemur seint heim er ekkert búin að læra, það er ekki séns í fokking helvíti að ég muni borga framhaldsskóla fyrir þetta barn satans! Hún situr undir grimmdarlegum reiðilestri um hverslags helvítis fábjáni hún sé og að hún geri aldrei neitt! ALDREI! Og því fylgir svo grátur yfir óréttlæti heimsins. Vonda barn.
Ég hata allt og alla.
Hata.
Svo fer ég að syngja og hlæja.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 14.5.2013 | 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Salt á grautinn er eitt en salt eingöngu á allan mat er frekar fúlt. Salt og pipar (svartur, grænn og hvítur) er góð blanda og það þarf ekkert annað krydd, nema ef ske kynni að piparinn valdi bólgu í vörum og sviða og brunatilfinningu í andliti.
Það sem eftir stendur á mínu matseðli er því: tröllahafrar, hvít hrísgrjón, hrískökur, hvítt spelt, matarsódi, kakó, sykur (mjög lítið), hunang, ísl. smjör, ostur, mjólk, rjómi, salt, sumar olíur, eggjahvítur, rækjur, lax, silungur, lamb, naut, kjúklingur, kaffi, svart te og camillu te.
Hnikað frá þessu þýðir bara þreyta og flensueinkenni.
Þetta er um 10% af þeirri matvöru sem ég neytti að jafnaði áður. FÚLT!
já bara fúlt.
Bæjæbæbæbæbæ
Lífstíll | 1.5.2013 | 14:02 (breytt kl. 14:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Etið grænmeti, ávexti og grófmeti því annars bíður helvíti handan við hornið. Sjúkdómar, næringarskortur og sveppafylltur ristill er það sem koma skal. Mjólk er af hinu illa! Hveiti er af hinu illa!". Það er nokkurnveginn svona sem ég skynja umræðuna um hvað sé best fyrir okkur.
Ég hlustaði að sjálfsögðu á þetta því ég vildi fá heilsuna mína aftur, ég vildi vera hraust og það var ekki hægt nema troða kroppinn fullan af grænmeti og hnetum.
Fyrir rest ákvað ég að það var allt í lagi að vera minni manneskja og tók inn allt eitrið og út allan bjargvætinn (eða að mestu, ég er stundum óþekk). Ég drekk mjólk skammlaust og ét hveiti og sykur með ánægju. Skjaldkirtillinn sem er búinn að vera latur í tæp 3 ár er á góðu róli, ég sef á nóttunni, ég er betri í maganum, andleg líðan er betri, ég verð ekki lengur hundveik á blæðingum og fleira og fleira.
Bráðum verð ég loks eins og venjulegt fólk, nema að sjálfsögðu ég get ekki borðað eins og meðaljón en ég er vön skítköstum í kringum það.
Stuð
Bæjæbæbæbæbæ
Lífstíll | 6.4.2013 | 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir um fimm árum var ég andlegt hrúgald. Ég gekk um hnípt með betlaralegan hvolpasvip í augum. Ég óskaði þess iðulega að ég gæti borið með mér gat til að stökkva ofan í við erfiðar félagslegar aðstæður, eins og t.d. ef einhver tók ekki eftir að hafa misst eitthvað og ég þurfti að pikka í bakið á viðkomandi. Með dúndrandi hjarta og þurran munn kallaði ég heyrðu, halló!. Ég hljóp til og titrandi höndin, sem streittist á móti, pikkaði í viðkomandi og undarlega rám og skjálfandi rödd sem virtist koma utan frá sagði þú misstir þetta.
Hversdagslegar aðstæður voru erfiðar og margar óyfirstíganlegar. Þá var ég um 50 kg og 160 cm.
Mig langaði svo að vera hraust, vera að hreyfa mig og stunda líkamsrækt. Vandamálið var að mér fannst tæki svo leiðinleg. Ég og systir mín fórum því saman í hóptíma og fundum okkur vel þar. Systir mín hætti en ég hélt áfram. Það var ekkert svo erfitt að mæta ein því ég var farin að þekkja til þarna. Að vísu var erfitt að mæta í aðra opna tíma, ef ég mætti sat ég á dollunni góða stund fyrir tímann með kvíðahnút í maganum.
Smám saman jókst sjálfstraust mitt og kjarkur, ég þorði meira að segja að júhhúa fólk sem missti draslið sitt án þess að taka eftir því.
Ég er hætt í hóptímum og farin að æfa sjálf, ég fann út hvað mér þótti skemmtilegt og hlakkar því yfirleitt til að fara í ræktina. Ég hef ekkert lést, í dag er ég um 60 kg og 162 cm og bara afar sátt við það.
Með tímanum hefur sjálfstraustið aukist enn meira. Ég þori að segja mína skoðun og tjá mig á vissum sviðum, það er auðvelt í vinunni gangvart starfsfólki og yfirmönnum (ég tók meira að segja að mér að vera trúnaðarmaður) en á persónulega sviðinu er ég enn að bæta mig.
Ég finn það að ef ég er ekki dugleg að mæta í ræktina reygir gamla Klisja hálsinn aðeins og kíkir með öðru auganu á hvort það sé tímabært að taka við aftur. Hún er alltaf tilbúin að taka við.
Mér sárnar þess vegna yfirleitt þegar fólk talar eins og ræktin sé afsprengi hins illa. Allt þetta meidda fólk og veika fólk, þetta er allt í ræktinni. Tölfræðilega séð efast ég um að fólk sem stundar ræktina sé oftar veikt eða með vöðvabólgur en annað fólk, fólk sem fer í ræktina er bara venjulegt fólk.
Þegar allt kemur til alls þá snúast æfingar því ekki um að grennast og borða brokkolí, heldur til að viðhalda gleði í hjartanu og elífri uppsprettu hláturs.
Bæjæbæbæbæbæ
Lífstíll | 19.3.2013 | 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ef ég fæ einhverstaðar verki, svona eins og gengur og gerist með venjulegt fólk, þá fæ ég athugasemdir á borð við: "Þetta er ræktinni um að kenna", "Er 'etta ekki bara allt þetta þunga sem þú ert að taka?", "Eru þetta ekki allar þessar bjöllur og þetta allt sem þú lyftir?" o.s.frv.
Aldrei nokkurn tímann hef ég heyrt nokkurn kenna nokkru um þegar fólk sem stundar ekki ræktina fær verki einhverstaðar. það er bara eðlilegur hluti af daglegu lífi að kenna til einhverstaðar, nema að sjálfsögðu ef þú ert í ræktinni.
Vitringarnir gúddera ekki að þetta sé líklegast frekar vinnan eða prjónaskapurinn. Að því sögðu þá eru góðar líkur á að ákveðnir verkir koma fram vegna þess að æfingar styrkja veikleika í líkamanum. Því ber að fagna því það er hægt að laga og verða heilli. Undirróttin er samt slæmir vanar sem þú iðkar dagsdaglega, þessar daglegu rútínur sem við hugsum ekki um.
En það get ég ekki sagt við vitringana þá mun heyrast - "sko! allt ræktinni að kenna!"
Bæjæbæbæbæbæ
Lífstíll | 3.3.2013 | 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef oft fengið komment á líkama minn og í 99% tilvika eru þau neikvæð. Ég er með bumbu, ljóta handleggi og hneykslanlega appelsínuhúð sem er alveg óskiljanlegt af hverju ég sé ekki löngu búin að gera eitthvað í (guuuubb).
Ég sé þetta líka skomm, í hvert skipti sem ég geng framhjá spegli sýnist mér maginn vera meter á undan mér og krumpurnar á blessuðum rassinum eru svakalegar, hvað þá á lærunum!
Alltaf þegar ég fer í sund hugsa ég með mér að þetta skipti bara andskotans engu máli en bakröddin segir "krumpur, oj - ekki berja neinn með bumunni!"
Ég brá á það ráð áðan að girða niður um mig, bretta upp bolinn og ljósmynda dýrðina. Mig langaði að festa á digital hversu slæmt ástandið væri.
Ég tók margar margar myndir því engin myndanna var nógu hræðileg, smá börkur hér og þar og vart merkjanleg bumba, bara ósköp venjulegur konu magi.
Nú veit ég ekki alveg hvernig ég á að haga mér verandi með ósköp venjulegan líkama, ekki einhverja gangandi hryllingsmynd.
Um hvað á ég að hugsa núna þegar ég fer í sund?
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 26.2.2013 | 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flestir fá sinn einstaka dag til að fagna tilveru sinni. Mæður, feður, bóndinn og frúin eiga sinn dag á árinu og hamingjuóskum er dreift eins og álfadufti.
En enginn óskar mér til hamingju af því að ég er einhleyp.
Mér þætti ekkert leitt að fá í einn dag viðurkenningu á að ég sé kannski ekki einhver furðuvera, eins og margir halda að einhleypingar séu.
Mér þætti sérstaklega gaman að fá hamingjuóskir frá tvíhleypingum sem gjarnan lyfta brúnum, opna augun vel, lyfta upp lófum og spyrja skrækum rómi "en af hverju ertu einhleyp???!!"
Frá þessu fólki væri ég til í að fá blóm.
Já, svo sannarlega.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 24.2.2013 | 12:43 (breytt kl. 12:43) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég fór í fýlu í gærkvöldi, alveg hrikalega fýlu. Vinkona mín var í heimsókn hjá mér og settist við tölvuna og var á facebook. Til hvers að vera í heimsókn? Hún var að spjalla við aðra og þuldi upp skemmtilegar samræður við hina sem hún var að rabba við.
Ég heyrði bjartsýnisröddina í höfði mínu segja "kommon, þú verður bara hress og skemmtileg og hlærð með henni yfir facebook, svo finnið þið ykkur eitthvað skemmtilegt að gera".
En mig eiginlega langaði miklu frekar að vera í fýlu. Hún sagði líka að ég væri með ljóta handleggi, þarna hafði ég tvær góðar ástæður til að vera í fýlu.
Stundum er bara gott að leyfa sér að vera í fýlu, en bara stundum.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 3.2.2013 | 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í um tvö ár eða meira (ég er löngu hætt að telja) hefur matur farið illa í mig. Það undarlega er að ég hef verið með einkenni nánast alla daga, nema þegar ég hef dottið í brauð og kleinuhringjaát.
Enn undarlegra er að grænmeti og ávextir fara illa í mig hvort sem ég hef borðað hrátt eða eldað. Það er í hæsta máti óeðlilegt.
Jæja, ég hef verið að taka út fæðu og setja inn, tegundir og eina og eina fæðutegund en aldrei verið góð. Ég fór að fá munnþurrk og sæta rauða hringi við munnvik, fólk hélt þegar ég var að rembast við að vera fín með rauðan varalit að ég hefði varalitað svona flott út fyrir.
Dóttir einnar sem ég þekki er með ofnæmi fyrir sítrus og ég mundi eftir að hún hafi talað um einkenni við munn. Því tók ég út sítrusávexti og varirnar urðu betri. En líðanin almennt ekki.
Ég hringdi því blessaða konuna ég var með öll einkenni sem dóttir hennar var með. Hún sagði mér að taka út nánast allt grænmeti, alla ávexti, öll ber nema bláber, hnetur, möndlur, baunir, gróftmeti, lauka, nánast allt krydd og allan tilbúinn mat.
Í gleðivímu yfir að þetta væri sko pottþétt það sem væri að hrjá mig tætti ég allt úr skápum og ók því með hraði heim í skápa systur minnar.
Ég stoppaði ekki til að hugsa um að það væri smá líkur á að þetta væri ekki það sem væri að.
Krossa bara fingur að svo sé.
Bæjæbæbæbæbæ
Lífstíll | 24.1.2013 | 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar