Færsluflokkur: Bloggar
Ég heyri konur tala mikið um ógeðslegu lærin sín, þetta slitna ljóta drasl með krumpaða appelsínuhúð. Einni varð meira að segja á orði að hún hefði ekki líkamann í að fara í bikini. Ef konum almennt finnst slitnu appelsínulærin SÍN ógeðsleg þá hljóta mín slitnu appelsínulæri líka að vera ógeðsleg. En ég flagga þeim bara, svona er ég illa innrætt.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 23.6.2013 | 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég var í gær að játa fyrir sjálfri mér að ég þjáist af fyrirtíðaspennu. Mér hefur aldrei dottið í hug að nefna þetta því nafni því í huga mér voru bara viðkvæmar konur sem þjást af þessu. En ég játa, ég er ein af þeim.
Ég hef alla tíð bara verið nokkuð glaðlynd, það tók mig því nokkuð marga mánuði að átta mig á því að Ms. Hyde væri reglulegur gestur á föstum tíma.
Reyndar þegar ég fékk einkenni hormónóreglu fyrir nokkrum árum þá þurfti mömmu til að segja mér tengslin, því ég er bara skussi og tengi ekki svona lagað.
Að öllu jöfnu er ég bara trallandi og syngjandi sæl. Ég dansa við eldamennskuna, syng í sturtunni, tala hátt og mikið, hlæ eins og ég fái forstjórnalaun fyrir, á þó daga þar sem ég er ekki trallandi en samt nokkuð sátt, stundum döpur, stundum smá reið.
En svo einn daginn af einhverri góðri ástæðu fer ég að grenja. Og ég grenja allan daginn, þann næsta og jafnvel þar næsta. Ég er einnig að kafna úr reiði. Þungur þrýstingur býr um sig í brjóstholinu og leitar leiða til að sprengja sig út. Mig langar að brjóta og bramla allt helvítis draslið og allt Þetta fólk sem er að gera mér lífið leitt má hoppa upp í fokkings rassgatið á sér. Vinkona mín gerir eitthvað af hugsunarleysi, ætla aldrei aftur að tala við hana. ALDREI! Unglingurinn kemur seint heim er ekkert búin að læra, það er ekki séns í fokking helvíti að ég muni borga framhaldsskóla fyrir þetta barn satans! Hún situr undir grimmdarlegum reiðilestri um hverslags helvítis fábjáni hún sé og að hún geri aldrei neitt! ALDREI! Og því fylgir svo grátur yfir óréttlæti heimsins. Vonda barn.
Ég hata allt og alla.
Hata.
Svo fer ég að syngja og hlæja.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 14.5.2013 | 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef oft fengið komment á líkama minn og í 99% tilvika eru þau neikvæð. Ég er með bumbu, ljóta handleggi og hneykslanlega appelsínuhúð sem er alveg óskiljanlegt af hverju ég sé ekki löngu búin að gera eitthvað í (guuuubb).
Ég sé þetta líka skomm, í hvert skipti sem ég geng framhjá spegli sýnist mér maginn vera meter á undan mér og krumpurnar á blessuðum rassinum eru svakalegar, hvað þá á lærunum!
Alltaf þegar ég fer í sund hugsa ég með mér að þetta skipti bara andskotans engu máli en bakröddin segir "krumpur, oj - ekki berja neinn með bumunni!"
Ég brá á það ráð áðan að girða niður um mig, bretta upp bolinn og ljósmynda dýrðina. Mig langaði að festa á digital hversu slæmt ástandið væri.
Ég tók margar margar myndir því engin myndanna var nógu hræðileg, smá börkur hér og þar og vart merkjanleg bumba, bara ósköp venjulegur konu magi.
Nú veit ég ekki alveg hvernig ég á að haga mér verandi með ósköp venjulegan líkama, ekki einhverja gangandi hryllingsmynd.
Um hvað á ég að hugsa núna þegar ég fer í sund?
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 26.2.2013 | 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flestir fá sinn einstaka dag til að fagna tilveru sinni. Mæður, feður, bóndinn og frúin eiga sinn dag á árinu og hamingjuóskum er dreift eins og álfadufti.
En enginn óskar mér til hamingju af því að ég er einhleyp.
Mér þætti ekkert leitt að fá í einn dag viðurkenningu á að ég sé kannski ekki einhver furðuvera, eins og margir halda að einhleypingar séu.
Mér þætti sérstaklega gaman að fá hamingjuóskir frá tvíhleypingum sem gjarnan lyfta brúnum, opna augun vel, lyfta upp lófum og spyrja skrækum rómi "en af hverju ertu einhleyp???!!"
Frá þessu fólki væri ég til í að fá blóm.
Já, svo sannarlega.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 24.2.2013 | 12:43 (breytt kl. 12:43) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég fór í fýlu í gærkvöldi, alveg hrikalega fýlu. Vinkona mín var í heimsókn hjá mér og settist við tölvuna og var á facebook. Til hvers að vera í heimsókn? Hún var að spjalla við aðra og þuldi upp skemmtilegar samræður við hina sem hún var að rabba við.
Ég heyrði bjartsýnisröddina í höfði mínu segja "kommon, þú verður bara hress og skemmtileg og hlærð með henni yfir facebook, svo finnið þið ykkur eitthvað skemmtilegt að gera".
En mig eiginlega langaði miklu frekar að vera í fýlu. Hún sagði líka að ég væri með ljóta handleggi, þarna hafði ég tvær góðar ástæður til að vera í fýlu.
Stundum er bara gott að leyfa sér að vera í fýlu, en bara stundum.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 3.2.2013 | 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Árið hjá mér hefst eins og hjá mörgum öðrum, fullt af allskonar fyrirheitum. Ég set mér ekkert sérsakt áramótaheit en það er ýmislegt sem ég þykist ætla að laga á nýja árinu.
Það sem ég þykist ætla að vera eða gera er t.d: vera skipulögð, hafa gott plan í ræktinni, borða hollan og góðan mat, vera dugleg að halda yfirlit yfir óþolseinkenni, hafa hreint og fínt í kringum mig, meiri samskipti við vini og vandamenn, rækta góð samskipti við dótturina, vera dugleg að læra, vera betri manneskja og örugglega fullt annað.
Árið átti því að hefjast hjá mér með pompi og prakti og ýmis hjól áttu að snúast.
En árið hófst á á pizzu, síðustu pizzunni með pizzusósu því tómatar (ásamt öðrum náttskuggum) fer illa í minn kropp. Einn dagur í veikindum var ekkert tiltökumál, ég mundi bara vera veik um kvöldið og allt í gúddí á fimmtudeginum.
En ég var bara ekkert hraust á fimmtudeginum, en þá átti allt bara að hefjast á föstudeginum. Á fimmtudagskvöldinu var ég nýbúin að borða músíhnullunga með helling af súkkulaði. Ég strauk mér um magann af vellíðan eftir átið og hóf að lesa á pakkann.
Miðað við mína forsögu þá les ég alltaf á pakkana. Ég las innihaldslýsinguna vel og vandlega við kaupin á þessum blessaða pakka. En fyrir neðan blessaða innihaldslýsinguna stóð: inniheldur m.a. bygg.
Ég henti mér á stól og fór að hágráta, bygg er nefnilega eitur í minn kropp.
Ég grét það að ég mundi vera veik aftur deginum eftir og ég grét það að árið var að byrja illa. Árið átti að byrja vel!
Mér varð hugsað til gamlárs og hvað það var gaman þá, árið endaði vel. Þá rann það upp fyrir mér að það skiptir ekki máli hvernig byrjunin er, það er endirinn sem skiptir máli. Árið er bátsferð á árabát yfir Atlantshafið, stundum lyngt og stundum ekki.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 5.1.2013 | 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef haft þann leiða ávana í desember að gera ekkert fyrr en korter í jól. Nokkrum dögum fyrir jól, yfirleitt tveim dögum, drattast ég af stað að versla gjafir. Með axlir upp við eyru, eyrun spennt aftur og sótbölvandi öllu þessu liði sem er fyrir mér arka ég í gegnum verslanir og óska þess heitt og innilega að ég hefði drattast til þessa fyrr. Ég lofa sjálfri mér að hefja jólagjafainnkaup snemma á árinu. "'ÉG SKAL!"
Svo pakka ég inn móð og másandi, eldrauð í framan af æsingi og öskrum því ég þarf að drífa þetta af. Ég á nefnilega eftir að versla mat, þrífa og skreyta.
Í gær neyddist ég til að rífa mig snemma fram úr því ég hafði verið svo forsjál að panta tíma í dekkjaskipti kl 10:00. Ég var ekkert sérstaklega ánægð með sjálfa mig, því mér þykir ægilega gott að sofa fram eftir. "Af hverju pantaði ég ekki bara tíma kl 12? Hvurslags sauðhaus er ég eiginlega!"
Eftir dekkjaskiptin þræddi ég nokrrar búðir og kl 12:02 var ég búin að versla flestallar gjafirnar. Spurning hvort ég trassi restina fram á síðustu stundu?
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 2.12.2012 | 14:36 (breytt kl. 14:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég fékk sms áðan frá "Sigga" sem var að fiska eftir því hvort ég ætti kæró. Ég svara vanalega ekki svona smsum frá ókunnugum og óskráðum númerum en var pínu spennt yfir þessari óvæntu athygli.
Svo ég svaraði og spurði hver þessi "Siggi" væri.
Siggi varð frekar hlessa og spurði hvort það væri möguleiki á að þetta væri rangt númer.
Ég var pínulítið vonsvikin og svaraði til að líkast til væri það svo.
"Siggi" sendi svar til baka, ég opnaði smsið smá spennt því hver veit - kannski var hann að gera hallærislega tilraun til að veiða upp úr mér hvort ég væri á föstu eður ei.
Þá hélt að hann þetta númer ætti dóttir mín.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 21.11.2012 | 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mér finnst alltaf frekar sérstakt þegar fólk úthúðar einhverju með fingur á lofti, segjum X, hendir fram rökum eins og það sé að dreifa fræjum í matjurtartgarð, en hefur engar lausnir.
Að því sögðu, hef ég örugglega gert það sjálf.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 20.11.2012 | 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég ber á borð vandamál sem þarftnast úrlausnar, fyrir manneskju sem getur leyst vandamálið. Manneskjan segir, með ákveðni í fasi, að það muni ekki vera unnið að þessu vandamáli núna og óvíst hvort það verði nokkuð gert. Þetta vandamál snertir líðan fólks. Þessi manneskja slengir fram vinsælum frasa og segir mér að hugsa í lausnum, t.d. að flýja aðstæðurnar (í mínum huga er það engin lausn).
Ég er enn hvumsa, nú nokkrum dögum seinna, og veit ekki hvort ég eigi að snúa mér til vinstri, hægri eða bara sleppa því að snúa mér.
Verst finnst mér að ég neyðist að öllum líkindum bara til að kyngja þessu, þegja og vera prúð.
það festist örugglega hvumsa svipur á andlitinu, svolítið hissa og svolítið hugsi.
Bæjæbæbæbæbæ
Bloggar | 10.11.2012 | 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Des. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 |
8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 |
15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 |
22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 7040
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar